Fyrirvari: Ráðfærðu þig alltaf við sálfræðing, geðlækni eða annan heilbrigðisstarfsmann áður en þú byrjar á andlegri vinnu eins og hugleiðslu, sérstaklega ef þú átt við andleg eða líkamleg heilsufarsvandaað stríða (t.d. kvíða, þunglyndi, áfallastreitu eða aðra geðsjúkdóma). Hlustaðu á líðan þína meðan á hugleiðslunni stendur og hættu strax ef þú finnur fyrir einhverskonar óþægindum. Hugleiðslan fer fram á eigin ábyrgð.
Örhugleiðsluplanið samanstendur af sex mismunandi hugleiðslum. Þú ræður algjörlega hvaða hugleiðslu þú byrjar á. Hugleiðsla 6 er framhald af hugleiðslu 5 en þú þarft aðeins að stunda hugleiðslu 5 einu sinni og endurtaka hana síðan eftir þörfum, t.d. 1x á ári.
Hvaðan eru þessar hugleiðslur? 7 mín hugleiðslupakkinn varð til eftir að ég varð 2ja barna mamma 2019 og fann hvað ég hafði engan tíma fyrir mig sjálfa. Ég var í eigin rekstri og með fullt af konum í þjálfun. Mér fannst svo mikilvægt að gefa frá mér góða orku, bæði til þessara kvenna og barnanna minna. Ég fór því að hugleiða og heyrði eitt sinn að prófa að stilla timer á 5 mín og loka augunum. Ég ákvað að prófa það og við það fór ég að spyrja mig spurninga. Þetta þróaðist síðan í þó nokkrar spurningar og varð síðan til þess að ég tengdist mér á hátt, mér leið vel og stillti mig á góða braut. Þegar ég var að deila þessu á samfélagsmiðlum varð svo mikill áhugi að ég ákvað að útbúa hugleiðslupakka sem innihélt þessar hugleiðslur. Allt með það markmið að tengja þig betur við sjálfan þig. Reynslan hefur sýnt að flestir finni áhrif 7-12 dögum eftir að þau byrja að hugleiða daglega.
Hvernig eru þessar hugleiðslur? Hver hugleiðsla er aðeins 7 mín og er eins uppsett. Þú byrjar á að koma þér vel fyrir í liggjandi stöðu og með lokuð augun. Ég byrja á að láta þig gera sérstaka öndun sem er ætluð að koma þér inn í hugleiðsluna og slaka örlítið á. Öndunin er þannig að þú andar að þér og tel ég upp að fjórum, síðan leggur þú tungu upp í góm og heldur inni andanum í 4 sek og síðan andar þú hægar frá þér í samtals 8 sek og slakar á öllu. Næst læt ég þig spyrja þig spurningu. Þú ætlar að gefa huganum þínum frjálst flæði og sjá hvað er á bakvið hana. Þegar 7 mín eru búnar þá heyrist gong hljóð og þá kem ég aftur inn og læt þig taka sérstakan andardrátt og síðan heldur þú áfram með daginn þinn. Suma daga verður þú allan tímann að eiga samræður við sjálfan þig, suma daga ferðu að hugsa um eitthvað allt annað en með æfingunni nærðu að einblína á spurninguna í hugleiðslunni og nærð að svara henni. Þegar þú nærð að svara henni er afleiðingin yfirleitt þægileg, þú getur þá leyft þér að slaka á og liggja með sjálfri þér. Vertu með blað og penna hjá þér þannig að þú getir skrifað niður það sem kemur upp og þú vilt muna. Út frá reynslu margra hefur það tekið um 7-12 daga að finna áhrif af þessum hugleiðslum.
Um þessa hugleiðslu: Þessi hugleiðsla er ætluð að gera þig meðvitaðri um hvað þú ert að einblína á. Í hugleiðslunni ætlar þú að spyrja sjálfan þig “Hvað er ég að einblína á í dag, hvaða áhrif er það að hafa á mig, get ég séð það með öðrum hætti“. Til dæmis gætir þú verið að einblína á hvað allt gengur vel, það hefur góð áhrif á þig og gætir þú haldið áfram að sjá hlutina sem ganga vel hjá þér. Annað dæmi gæti verið að þú ert að einblína á hvað þú ert löt/latur og það hefur þau áhrif að það lætur þig líða illa, þú gætir þá litið á það með öðrum hætti, að þú ert að gefa þér svigrúm til þess að átta þig á aðstæðum og átta þig á hvernig þú vilt verða. Ef þú ert að einblína á eitthvað uppbyggjandi reyndu að styrkja það enn frekar, ef þú ert að einblína á eitthvað sem er ekki uppbyggjandi reyndu að sjá það með öðrum augum og einblína á það. Eigðu þessar samræður við sjálfan þig sama hvað kemur upp.
Það gæti verið gott að vera með blað og skriffæri hjá þér ef þú skyldir komast að einhverju í hugleiðslunni sem þú vilt geta minnt þig á. Ef þú ert ekki með blað og skriffæri gætir þú skrifað punkta í símanum.
Láttu mig vita í comment hvernig þér fannst þessi hugleiðsla! Og endilega deildu henni með öðrum svo hún geti nýst fleirum.
Comments